Mér finnst svolítið skondið að margir þeirra sem hafa talað mest um blogg- og sms-málfar barna og unglinga virðast halda að krakkarnir kunni ekki að skrifa öðruvísi, að þetta sé sama málfar og þau nota í skólaritgerðum og annars staðar. Sjálfsagt eru dæmi um það en svo þarf þó alls ekki að vera.
Boltastelpan dótturdóttir mín bloggar. Þegar hún nennir. Stofnar reyndar nýtt blogg reglulega og ég hef ekki lengur tölu á þeim. Ég var að lesa bloggið hennar (sem hún á með vinkonu sinni) í morgun og fannst gaman að bera saman tvær síðustu færslurnar hennar, annars vegar þessa sem ber yfirskriftina Ikea, sem er skrifuð á ,,venjulegu máli", með fáeinum stafsetningar- eða ásláttarvillum, stöku slettu og einu geggti eða svo - og næstu færslu þar fyrir neðan, með fyrirsögnina tækondóóó :S, þar sem hún er greinilega í bloggham og skrifar allt annan stíl. Mér finnst þetta bara frábært, það sýnir að hún hefur máltilfinningu og ræður alveg við að skrifa mismunandi texta. Sem er fínt. Ekki nota ég sama stíl þegar ég blogga og þegar ég skrifa greinar í Gestgjafann.
Ég hef ekkert sérlega miklar áhyggjur af íslenskunni. Og ef hún er í hættu, þá er það allavega ekki vegna slangurs og unglingamáls. Það hefur lengi verið til.