Ég horfi nú ekki mikið á Discovery Science en í gærkvöldi var ég að flakka á milli stöðva og rakst þá á afskaplega áhugaverðan þátt (fyrir mig allavega), Kitchen Chemistry, sem Heston Blumenthal er með. Það sem hann gerir er náttúrlega gargandi snilld (líka það sem er alveg út í Hróa hött) og þetta reyndist vera einstaklega áhugaverður þáttur. Ekki versnaði það þegar hann fékk bæði Harold McGee og Peter Barnes sem gesti í þáttinn - ég á afskaplega góðar bækur eftir þá báða.
Ég horfði m.a. á skemmtilega tilraun með bragðskynjun, þar sem kom fram að jafnvel atvinnusmakkarar gátu ekki greint bragð þegar þeir voru með bundið fyrir augun og klemmu á nefinu - þá giskuðu þeir á að spergilkálsmauk væri ferskjumauk og maískornamauk væri bananar. Eða eitthvað álíka fáránlegt.
Heston og Harold McGee töluðu líka um lífseigar ,,eldhúsmýtur" sýndu líka enn einu sinni fram á hvað það er fáránlegt að tala um að ,,loka" kjöti - ég sannfærðist um þetta á sínum tíma þegar ég las bækur McGee og hef stundum skrifað um það, t.d. hér.
Ég vona að ég nái að sjá fleiri af þessum þáttum.