Við efnafræðistúdentinn vorum að horfa á viðtal við fyrrverandi fegurðardrottningar í Kastljósi og drengurinn fór eitthvað að velta því fyrir sér hvað yrði um fegurðardrottningar. Ungfrú Snæfells- og Hnappadalssýsla og allt það. Fæstar geta jú gert það að karríer að verða fegurðardrottningar. Og svo rifjaðist upp fyrir honum kvót úr leikriti sem við sáum einu sinni saman:
,,Það var einu sinni rotta og hún var úti að labba og svo datt hún inn um kjallaraglugga hjá atvinnulausri fegurðardrottningu. Og fegurðardrottningunni brá og hún rak upp öskur og svo náði hún í pönnu og drap rottuna með pönnunni. En á meðan rottan var að deyja var hún mjög leið og hugsaði um afleita stöðu rottunnar í heiminum ..."
(Þetta er kannski ekki alveg orðrétt nema upphafið. En einhvern veginn svona var þetta. Veit einhver hvert leikritið er?)