Búin að vera samvistum við Sauðargæruna í mestallan dag, það er mannbætandi. Eða hvernig er hægt annað en að gleðjast með ungum manni sem syngur hástöfum ,,hæ, hó, jibbí jei, það er kominn sautjándi júní" á dimmum nóvemberdegi, lýsir því yfir að hann vilji borða á útlendu veitingahúsi í hádeginu (en sættir sig við sænskar kjötbollur í Ikea, það er þó útlent ...), ræðir osta af áhuga við afgreiðslufólk ,,nei, ég vil ekki smakka þennan stóra, ég held að hann sé of sterkur fyrir börn", knúsar mann í tíma og ótíma og segir ,,ég á bestu ömmu í heimi - eða sko tvær bestu ömmur í heimi." Maður gerir ekki upp á milli ammanna sinna.
Hann kemur aftur til mín á morgun, ég hlakka til að fá hann.