Búin að eyða mestöllum deginum í að laga villur. Ekki mínar eigin (held ég), heldur villur sem virðast hafa komið inn þegar hluti af uppskriftunum var fluttur á milli kerfa. Til allrar hamingju voru það bara nokkrar hráefnistegundir sem höfðu farið á flakk og ég er búin að yfirfara það allt saman svo að nú er ekki lengur nein súkkulaðibúðingsuppskrift þar sem á að nota ,,2 pakka af Season all" - eða það vona ég allavega ekki. Ábyggilega er mér bara að hefnast fyrir að taka inn uppskriftir þar sem verið er að brúka Season all og aromat.
Jú, svo skrifaði ég líka grein um barnaafmæli. Að vísu er orðið nokkuð langt síðan ég hef þurft að halda slíka samkomu en ég hef nú eitthvað komið að afmælishaldi hjá barnabörnunum. Ég man ekkert hvernig kökur ég bakaði fyrir gagnlega barnið en ég man vel eftir skriðdrekatertunni sem efnafræðistúdentinn fékk eitt árið og ekki síður eftir bláu kökunni sem hann vildi endilega að ég bakaði (ég get ómögulega munað af hverju) og var svo blá að það var ekki skorin ein einasta sneið af henni í allri veislunni. Eftir það fékk hann engu að ráða um litinn á kökunum, hvað sem öðru leið.