Ég er semsagt með sjókokkapróf. Sem ég hef að vísu aldrei nýtt mér. Ekki á sjó að minnsta kosti. En þetta var hægt að fá metið sem tvöfalda valgrein í MA hér fyrir eina tíð og mér veitti ekki af glás af aukapunktum til að bæta upp alla mínuspunktana sem ég hafði fengið fyrir mætingaskort (tengist staðreynd númer eitt í upptalningunni hér einhvers staðar neðar á síðunni).
Og í Arsenic and Old Lace gleðst Mortimer Brewster ákaflega þegar hann kemst að því í lok myndarinnar að hann er rangfeðraður og er sonur sjókokks. Það er efnafræðistúdentinn alltsvo líka, svo framarlega sem hann er rétt mæðraður, sem er nokkuð öruggt þótt ég hafi á sínum tíma fengið vitlaust barn á fæðingardeildinni. Það var greitt úr því. Svo að hann situr uppi með sína rugluðu ættingja, öfugt við Mortimer Brewster.