Það er frí frá hádegi í vinnunni, sem er nú ágætt - ekki það að ég sé að fara neitt úr bænum og ekki er ég heldur að fara að sitja á svölunum í sólbaði, eða veðrið gefur allavega ekki tilefni til þess - en ég get þá notað tímann til að ... hm, vinna heima.
Annars skil ég ekki þá áráttu í fólki að rjúka út úr bænum um verslunarmannahelgina. En ég er heldur ekki mikill tjaldbúi í eðli mínu - eiginlega alls enginn - og það eru hátt í þrjátíu ár síðan ég hætti að sjá fídusinn í því að drekka mig fulla einhvers staðar úti í móa. Eða drekka mig fulla yfirleitt, en það er önnur saga.
Verslunarmannahelgarnar í Miðgarði 1972 og '73 voru reyndar viss upplifun. Ofmetin samt, ég sé það núna.