Ég grillaði nýsjálenska nautalund áðan. Átti reyndar von á meira grillveðri þegar ég tók hana úr frysti en það var svosem allt í lagi. Skar hana niður í 4-5 cm þykkar sneiðar, kryddaði með pipar og salti og grillaði í svona 3 mínútur á hvorri hlið. Afbragðsgott. Bjó til þokkalegustu sósu (brúnaði himnur og afskurð af lundinni, bætti vatni, lauk, gulrótum, lárviðarlaufi, rósmaríni, timjani og grænmetiskrafti úr Heilsuhúsinu út í, sauð í hálftíma, síaði, bætti rjóma út í soðið og þykkti aðeins. Með þessu voru parísarkartöflur sem ég velti upp úr krydduðu hveiti og steikti í olíu, smjörsteiktir sveppir og grænt salat með vel þroskuðum tómötum og dálitlu af döðlum.
Sauðargæran borðaði aðallega sósu, fékk þrisvar eða fjórum sinnum á diskinn og fékk lánaða skeið til að moka sósunni upp í sig. Sagði mér að það væri gaman að vera fjögurra ára.