(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

2.4.05

Ég átti hálfpartinn von á að eitthvað færi úrskeiðis í matarboðinu sem ég hélt fyrir saumaklúbbinn í gærkvöldi. Til dæmis að ég kveikti í eldhúsinu eða missti aðalréttinn á gólfið. Það hefði verið alveg í stíl við heppni mína síðustu daga, ég er til dæmis bæði búin að brjóta gleraugun mín og missa gemsann ofan í klósettið.

En þetta fór nú allt vel og ég held að stelpurnar (jú, víst!) hafi verið alveg þokkalega ánægðar. Ég gaf þeim fyrst vatnsmelónu og tvíreykt hangikjöt sem ég keypti hjá henni frænku minni, svona á meðan þær voru að tínast inn og ég að útbúa forréttinn. Sem var rækjur, maríneraðar (hráar) í hvítlauksvinaigrette úr Virku, chili og kóríander, snöggsteiktar á pönnu og bornar fram á salati úr lárperum og ugli. Með þessu var chardonnay frá Fleur du Cap.

Aðalrétturinn var andabringur, maríneraðar í balsamediki, ólífuolíu og ögn af hlynsírópi og síðan steiktar á pönnu og kláraðar í ofni. Sósan var bragðbætt með svörtum trompetsveppum (þurrkuðum) og vænum slatta af púrtvíni og meðlætið var ofnsteiktar ratte-kartöflur og spínatsalat með asíuperum, pekanhnetum og rauðrófuspírum (ég var náttúrlega að koma frá Rússlandi og gat ekki sleppt rauðrófunum alveg).

Á eftir þessu var ég með eplaböku úr blaðdeigi og Galia-eplum, með heimagerðum vanilluís og Calvados-eplasósu og bauð upp á Calvados með. Og svo enduðum við á ostabakka og púrtvíni.

Þetta var allt saman bara alveg ljómandi ágætt.

|