Ég held að ég sé búin að gera allt sem ég þarf að gera til að undirbúa Rússlandsferðina, nema ég á eftir að skjótast í Sjóvá og fá staðfestingu á að ég sé með gilda ferðatryggingu. Ég er meira að segja búin að gefa efnafræðistúdentinum fyrirmæli um hvað á að gera við líkið ef ég krókna úr kulda í Pétursborg eða dey úr leiðindum á Arlanda eða í rútunni frá Helsinki til Pétursborgar (stoppið á Kastrup á heimleiðinni er svo langt að það getur verið að ég noti tækifærið og skreppi í bæinn svo að ég hef minni áhyggjur af því). Hann er reyndar líka búinn að fá fyrirmæli um hvað á að gera ef ég er heiladauð. Bara svo það sé á hreinu. Segið svo að ég sé ekki vel undirbúin.
Ég á reyndar eftir að pakka niður en þar sem ég fylgi hálftímareglunni minni þar eins og ævinlega læt ég það bíða þangað til í kvöld.