Ég fékk fjári góðan þorsk á Gallerý Fiski í hádeginu. Þorskur er mikill afbragðsfiskur ef hann er almennilega eldaður og ég botna ekkert í fólki sem fúlsar við honum en hakkar í sig ýsu með bestu lyst (ýsa getur verið glettilega góð líka en kemst sjaldan í hálfkvisti við þorskinn).
En ég borðaði svo mikið að ég er eiginlega ekkert svöng. Efnafræðistúdentinn sagðist ekkert vera mjög svangur heldur þannig að sennilega verður eitthvert léttmeti í kvöldmatinn hjá okkur. Léttsteikt grænmeti með pepperóní og kjúklingabaunum, eitthvað svoleiðis. Eða bara súpa.
Og svo þarf ég að gera lokaáhlaup á skattskýrsluna í kvöld. Nei, hún er ekkert erfið. Það er ég sem er svo óskipulögð. Finn ekki helminginn af þeim kvittunum og plöggum sem mig vantar.