Ég fékk mér kaffi á Umferðarmiðstöðinni í morgun á meðan ég var að bíða eftir að það væri opnað í rússneska sendiráðinu (já, ég veit, það er ekki alveg í leiðinni en það var ástæða fyrir þessu) og allt í einu áttaði ég mig á að ég var eina konan á kaffistofunni (fyrir utan starfsfólkið) og sennilega eini gesturinn sem ekki reykti. Það var alveg slatti af reykjandi körlum þarna en ég gat nú samt fundið mér borð úti í horni þar sem lítill reykur var nálægt.
Það rifjaðist annars upp fyrir mér um helgina hvað það er vont að sitja í reyk á kaffihúsi. Ég tala nú ekki um á skemmtistað. Og að sitja í reyk fyrir framan risaskjá og neyðast til að hlusta á Idol ... neitakk. Ég þurfti þó til allrar hamingju ekki að horfa á skjáinn og notaði tímann til að skrifa uppkast að grein.
Akureyrskir matsölustaðir voru annars blessunarlega lausir við sígarettureyk. Allavega þeir sem ég kom á.