Það er verið að jarða blessunina hana Maríu ljósu í dag. Ég skammast mín hálfpartinn fyrir að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um að hún hefði lifað svona lengi, stóð einhvernveginn í þeirri meiningu að hún væri dáin fyrir nokkrum árum - en hún var reyndar á 96. ári.
María tók á móti mér þegar ég fæddist. Ég held að það hafi ekki verið neitt sérlega auðveld fæðing, tók allavega nokkuð langan tíma. María var vön að spjalla við mæðurnar til að reyna að dreifa huga þeirra (eða kannski fannst henni bara svona gaman að spjalla) og þarna fór hún eitthvað að tala við mömmu um stjórnmálaástandið í Frakklandi. Ég veit ekki hver fjandinn var að gerast í Frakklandi á þeim tíma en það var svosem alltaf eitthvað að gerast í pólitíkinni þar, það vantaði ekki. Allavega hefur mér ævinlega skilist á móður minni að við þessar kringumstæður hafi áhugi hennar á stjórnmálaástandinu í Frakklandi verið í sögulegu lágmarki.
Rétt rúmlega sautján árum seinna lagðist ég inn á sjúkrahúsið á Króknum til að fæða gagnlega barnið. María var á vakt og var ákaflega hress og indæl eins og hennar var von og vísa (nema hvað það var skelfilegt að láta hana sprauta sig, það var eins og hún teldi vænlegast að nota alltaf stærstu sprautunál sem til var og börn og fullorðnir komu blá og marin frá henni). Og þar sem ég ligg þarna emjandi og stynjandi í fæðingarrúminu, byrjar þá ekki María að tala um stjórnmálaástandið í Frakklandi ...
María var mjög dipló. Þegar gagnlega barnið var fætt (það gekk reyndar fljótt og vel) og nýbökuð móðirin lá og dáðist að afkvæminu sagði hún mér að stelpan væri með næstfallegustu augu sem hún hefði séð. Það var vegna þess að afasystir mín, sem lá þá á sjúkrahúsinu, hafði komið inn á fæðingarstofuna til að skoða frænku sína, og María sagði henni að yngri sonur hennar hefði verið með þau alfallegustu augu sem hún hefði séð.
María tók semsagt á móti mörgum kynslóðum barna í minni fjölskyldu.