Ég nennti ómögulega að tína jólaskrautið af trénu svo að ég útvegaði mér röskan aðstoðarmann í það djobb, reyndar þann sama og skreytti það fyrir mig á Þorláksmessu. Hann var svo duglegur að hann gekk frá öllu hinu jólaskrautinu líka. Svo hentum við jólatrénu fram af svölunum út í garð, sópuðum barrnálar af gólfinu og settumst svo niður með kaffi, eplasafa og súkkulaðikex. Ég við tölvuna og hann að horfa á Stuðboltastelpurnar.
Ég skrapp í Bókavörðuna í gær og keypti fáeinar bækur að venju. Ein var sænskt kver sem heitir Mat for män. Nú veit ég hvað ég á að gefa sænskum karlmönnum að borða ef ég fæ einhverja slíka í heimsókn. Man samt ekki eftir að hér hafi borðað Svíi síðan sænski greifinn von Hauswolf vísiteraði ásamt fylgdarmanni sínum en það er alveg stolið úr mér hvað þeir borðuðu.
Og þó. Ég opnaði bókina og fyrsti rétturinn sem ég rak augun í bar heitið Gubbröra. Það þykir mér vafasamt.