Ég er að kvefast. Vonandi ekki meira en samt getur verið að ég sé að leggjast í rúmið. Ég má samt ekki vera að því svo að þegar ég kom heim eldaði ég súpu sem ætti að hafa gert sitt til að ná úr mér slæmskunni. Uppskriftin kemur hér - ef þið áttið ykkur á titlinum megið þið láta vita (eða giska) í kommentunum.
,,Enginn sem við þekkjum"
1 kjúklingur, meðalstór (eða 1 kg kjúklingabitar)
1 l vatn
3-4 gulrætur
1/2 laukur
1 vorlaukur
2-3 hvítlauksgeirar
3 cm bútur af engifer
2 chilialdin (mild)
1 1/2 tsk möluð kóríanderfræ
1 tsk karríduft
1/3 krukka tikka curry paste frá Patak
1 dós kókosmjólk
nýmalaður pipar
salt
Kjúklingurinn höggvinn eða skorinn í bita (e.t.v. 12-16 bita) og settur í pott. Vatni hellt yfir og hitað að suðu. Froðu fleytt ofan af. Gulræturnar skornar í bita, laukurinn saxaður, hvíti hlutinn af vorlauknum einnig og hvítlaukur, chili og engifer saxað smátt. Allt sett í pottinn ásamt kóríander, karrídufti, karrímauki, kókosmjólk, pipar og salti. Látið malla við hægan hita undir loki í um hálftíma. Smakkað til með pipar og salti. Grænu blöðin af vorlauknum söxuð og sett út í.