Flestar matreiðslubækur kaupi ég af því að ég hef hugsað mér að elda eitthvað upp úr þeim, afla mér hugmynda eða fræðast eitthvað, t.d. um ákveðnar aðferðir, matargerð einstakra landa og svo framvegis. En svo flýtur alltaf með eitthvað af bókum sem ég kaupi af einhverjum allt öðrum hvötum.
Eina slíka keypti ég í Bókavörðunni á föstudaginn: Barbara Cartland's Health Food Cookery Book. Braut þar með tvö af prinsippunum mínum, þ.e. að kaupa aldrei bók sem hefur health eða diet í titlinum og að kaupa aldrei bók eftir Barböru Cartland. En þegar þetta tvennt kom saman stóðst ég ekki mátið.
Nú var Barbara heitin (og rómanafabrikkan hennar) einhver allra afkastamesti rithöfundur 20. aldar en ég vissi ekki fyrr að hún hefði sett saman matreiðslubók. Bækurnar hennar sexhundruðogeitthvað bera gjarna titla eins og The Innocent Heiress, A Halo for the Devil, Again This Rapture, The Thief of Love, A Hazard of Hearts og eitthvað ámóta. Ekkert um mat eða heilsu (ég hef grun um að The Magic of Honey sé ekki matreiðslubók heldur). Nei, ég kann titlana ekki utanbókar: Barbara hefur gefið hverjum rétti bókarheiti sem fyrirsögn. Það er misvel heppnað hjá henni, ég er ekkert viss um að það sé sniðugt að láta ábætisrétt heita Dangerous Experiment eða The Enchanting Evil.
Svo er þarna uppskrift að banönum í karamellusósu sem ber yfirskriftina Fat and Friendly. Það hljómar reyndar ekki eins og titill á ástarsögu en maður veit aldrei með Barböru. Allavega minnti þetta mig á hvað ég ætlaði að gera við afgang af panettone sem ég átti frá jólunum: ,,Bread-and-butter-pudding" með banönum. Sem ég gæddi mér einmitt á í gærkvöldi. Hvað sem um ástarsöguna má segja, þá er þetta viðeigandi heiti á svona rétti.