Rólegheit og leti, svona eiga jólin að vera. Ég sit hér í sófahorninu, hálfklædd undir teppi, og er að lesa bók númer tuttuguogsex í Dynasty-seríunni eftir Cynthia Harrod-Eagles. Fínar bækur að mörgu leyti, margar þó óþarflega langar en konan er náttúrlega að reyna að segja alla sögu Englands síðustu 600 árin í þessum bókum og flétta hana saman við sögu einnar fjölskyldu. Það tekst ótrúlega vel en þetta er svosem ekkert bókmenntalegt þrekvirki. En ég las fyrstu bókina fyrir 20 árum og það væri svolítið erfitt að hætta núna - enda bara 30-40 ár eftir af tímabilinu ...
Svo er ég með kveikt á sjónvarpinu. Eurosport. Skíðastökkskeppni. Nei, ég er ekki að horfa. Lít samt á skjáinn öðru hverju til að athuga hvort einhver kappinn sé ekki að detta. Það finnst mér gaman, ég er svoddan kvikindi. Man alltaf eftir því þegar skíðastökkvari missti hreinlega flugið af einhverri ástæðu og hlunkaðist beint niður. Það var fyndið.