Jólahaldið hér á Kárastígnum er alveg undir kontról.
Dökka lagið af súkkulaðiísnum er að frjósa, það ljósa verður gert á eftir (þríliti súkkulaðiísinn verður tvílitur í ár). Búið að taka andabringurnar úr frysti. Hangilærið komið í pottinn; sett í kalt vatn og haft á lægsta straum. Ég ákvað að fylgja eigin ráðleggingum og sendi efnafræðistúdentinn og uppáhaldstengdasoninn út til að fá áfyllingu á varagaskútinn (asnalegt að vera með varagaskút sem er tómur, er það ekki?).
Ég skrapp niður á Laugaveg í morgun eins og ég er vön að gera á aðfangadagsmorgni. Vantaði líka jólapappír og fleira. Það var eitthvað af fólki í Máli og menningu, slatti í skartgripa- og undirfatabúðum eins og venjulega, en einna mest sýndist mér vera að gera í Kokku. Venjulega er fólk víst ekkert hrifið af að fá eldhúsdót í jólagjöf (nema sérvitringar eins og ég) en ef það er úr Kokku er það sennilega í lagi af því að það er smart og dýrt. (Ekki misskilja mig, ég hef ekkert á móti dóti sem er smart og dýrt ...)
Gleðileg jól.