Hvenær ætli marenstertutímabilið hafi byrjað fyrir alvöru í íslenskri bökunarsögu? Ég er að skrifa grein þar sem aðeins er komið inn á þetta og ég man varla eftir þeim í tertuboðum fyrir 1970-'75. Þó fór ég í ansi margar tertuveislur fyrir þann tíma. Mér sýnist líka á eldri matreiðslubókum sem ég hef verið að skoða að það sé lítið um þær þar, ein uppskrift eða svo í hverri bók - ég á reyndar eftir að athuga þetta betur en ég held að þær hafi ekki verið algengar fyrr en fyrir 20-25 árum. Allavega gerðist það ekki hér áður að maður færi í kaffiboð þar sem nánast ekkert er á borðum nema marenstertudrulla (ókei, ég er enginn sérstakur marenstertuaðdáandi).
Marenskökur eru náttúrlega eggjafrekar og árviss eggjaskortur hefur sjálfsagt spilað inn í, það eru einmitt svona 25 ár síðan hann hvarf. Ég man allavega eftir því frá mínum allra fyrstu búskaparárum að hafa staðið í biðröð í Hagkaupum í Skeifunni í upphafi jólabaksturstímans til að fá úthlutað einum eggjabakka.