Af því að ég er nú að fara í saumaklúbb í kvöld, þá fór ég að hugsa um fyrirbærið, sem er satt að segja mjög merkilegt. Gjörsamlega vonlaust að útskýra það fyrir útlendingum, flestum allavega. Mjög erfitt að útskýra það fyrir karlmönnum, flestum allavega.
Það rann upp fyrir mér að ég hef ekki hugmynd um hvenær saumaklúbbar urðu til sem fyrirbæri - ég giska á snemma á síðustu öld og sjálfsagt hefur lengi framan af verið fengist eitthvað við að sauma og prjóna í saumaklúbbum en það er víðast hvar löngu aflagt. Ég hef einu sinni í 26 ára sögu saumaklúbbsins míns reynt að mæta með prjóna. Það eru yfir 15 ár síðan og þær hinar minnast enn á þetta af og til.
Við í mínum saumaklúbbi eigum kannski frekar fátt sameiginlegt annað en að hafa verið í MA um miðjan áttunda áratuginn - líklega bjuggum við allar á Vistinni veturinn 1974-5. En við vorum ekki allar í sama bekk eða sömu deild, tilheyrðum ekki allar sömu klíku - þótt ýmsar okkar hafi vissulega verið í kvennabúri Helga Skútu - útskrifuðumst ekki allar frá MA, stunduðum ekki allar Sjallann jafnstíft (sumar af mun meiri festu en aðrar), vorum ekki allar sammála í pólitík ...
Við höfum líka farið mismunandi leiðir í lífinu. Sumar eru hámenntaðir doktorar, aðrar luku seint eða aldrei stúdentsprófi. Sumar voru erlendis árum saman, aðrar hafa verið um kyrrt í miðbæ Reykjavíkur í aldarfjórðung. Sumar vaða í peningum, aðrar eiga ekki bót fyrir boruna á sér. Helmingurinn er fráskilinn eða hefur aldrei verið í hjónabandi og líður flestum bara vel með það. Hinn helmingurinn er giftur (eingiftur í öllum tilvikum) og líður bara ágætlega með það líka að ég held. Við eigum allar börn, mismörg, misgömul (á aldrinum 8-30 ára) og miserfið. Sumar eiga barnabörn líka.
Við erum mjög ólíkar og eigum í rauninni fáa snertifleti. Við hittumst sjaldan utan saumaklúbbafunda og mundum kannski fæstar þekkjast lengur ef klúbburinn kæmi ekki til. Það var líka eiginlega tilviljun að við lentum allar saman í klúbbi. En þessar konur eru samt bestu vinkonur mínar í lífinu og ég treysti þeim öllum fyrir hverju sem er. Maður segir saumaklúbbnum sínum frá ýmsu sem enginn annar fær að heyra.
Saumaklúbbar eru bráðnauðsynlegt fyrirbæri. Allavega fyrir mig.