Efnafræðistúdentinn er að horfa á fótbolta. Ekki ég. En ég spurði hann samt í kurteisisskyni hvernig staðan væri. Það reyndist ekki vera búið að skora neitt mark.
Efnafræðistúdentinn: -Gallinn við leiki þar sem bæði liðin þurfa virkilega að vinna er að það er ekki verið að taka næga sénsa.
Móðirin: -Ég hefði haldið að það ætti frekar við leiki þar sem hvorugt liðið má við því að tapa.
Efnafræðistúdentinn (pirraður): -Það er það sama, mamma.
Móðirin: -Neinei, þegar lið þarf að vinna reynir það að skora en þegar lið vill ekki tapa reynir það að forðast að láta skora hjá sér.
Efnafræðistúdentinn (útúrpirraður): -Segðu mér eitt: Veist þú nokkuð um fótbolta yfir höfuð?