Ég sat frammi í borðstofu áðan (er að vinna heima í dag), með öll ljós kveikt klukkan tólf á hádegi, og raðaði í mig nýbökuðum smákökum og gammeldags jólabakkelsi eins og hunangsrúllutertu og döðlutertu, og hugsaði með mér: Maður skyldi ætla að það væri komin vetur, að það væri ekki ennþá september - og svo rann náttúrlega upp fyrir mér að það er einmitt ekki september lengur.
Mér finnst haustið ekki leiðinleg árstíð, öfugt við marga aðra. Haustið er tími til að hreiðra um sig inni og hafa það gott, elda matarmikla pottrétti og bragðmiklar súpur, risotto og alls konar huggumat, baka kökur og hreiðra svo um sig í sófahorninu með kaffi, bakkelsi og góða bók (eða tölvuna ef því er að skipta).
Það er ekkert hægt að kvarta yfir nýliðnu sumri. En mörg íslensk sumur eru þannig að það er varla hægt að vera úti og ekkert gaman að vera inni og maður verður hundleiður á þessu sumri sem ekkert er. Og þá er gott þegar haustið kemur og maður getur hætt að reyna að ímynda sér að það sé útiveður.
Ég ætla að skreppa og sækja mér meiri hunangsrúllutertu hingað í sófahornið.