Þar sem ég var að þvælast úti í bæ að drekka hvítvín og raða í mig snittum framundir kvöldmatartíma var maturinn af einfaldara taginu. En ekki verri fyrir það:
Bakað pasta með ricotta og skinku
250 g rigatoni napoletani (stuttar, sverar pastapípur - eða annað svipað pasta)
salt
1 dós (250 g) ricotta-ostur frá Galbani
150 g skinkustrimlar
1 1/2 msk rautt pestó
nýmalaður pipar
2-3 msk nýrifinn parmesanostur
Ofninn hitaður í 215°C. Pastað soðið í miklu saltvatni í 10-12 mínútur, það á að vera tæplega al dente. Á meðan er ricotta-osti, skinku og pestói blandað saman í stórri skál og kryddað með pipar og svolitlu salti. Pastanu hvolft í sigti og síðan saman við ricotta-blönduna. Sett í eldfast fat, ostinum stráð yfir og síðan bakað í ofni í um 15 mínútur.