Efnafræðstúdentsskinnið liggur veikur heima með hálsbólgu og hósta. Ég vafði hann inn í teppi í gærkvöldi og gaf honum heitt sítrónuvatn með engifer og hunangi. Veit ekki hvort það virkar til að koma honum á fætur en hann ætlaði allavega ekki í skólann í dag. Ég vona bara að ég hafi ekki smitast, ég má ekkert vera að því að verða veik.
Um kvöldmatarleytið í gær kom kornungur rafvirki og gerði við rafmagnið, fljótt og vel og tók lítið fyrir. Svona eiga rafvirkjar að vera. Ég þarf samt að fá hann (eða einhvern annan rafvirkja) fljótlega aftur því að það er eitt og annað sem þarf að laga og raflagnirnar í íbúðinni eru satt að segja dálítið sérkennilegar. Dæmi: Þegar ég sló út öryggi sem er merkt ,,gangur og herbergi suður" í gærmorgun fór rafmagnið af einni innstungu og einu ljósi í eldhúsinu, hálfri borðstofunni og allri stofunni, auk gangsins. Hins vegar gildir öryggið ekki fyrir fatakompuna á ganginum en þar er ekkert ljós hvort eð er því ljósastæðið er búið að vera ónýtt í nokkur ár. Já, ég verð líklega að fá rafvirkja bráðum aftur.