Boltastelpan er auðvitað heima vegna verkfallsins. Upphaflega var hún mjög kát með þetta og vonaðist eftir tveggja mánaða verkfalli. Núna segist hún vera orðin ,,soldið" leið. Henni finnst ekkert heillandi tilhugsun að sitja ein heima vikum saman og hafa ekkert að gera nema hanga í tölvunni og spjalla á msn við aðra krakka í sömu aðstöðu. Verst að ekki skuli vera hægt að senda hana norður í Húnavatnssýslu til afa hennar, hún mundi örugglega kunna vel við sig í smalamennskum og fjárragi - æi nei, ég gleymdi því, það var allt skorið niður þar vegna riðu. En hún gæti örugglega fundið sér eitthvað að atast í, hún er svoddan jarðvöðull.
Hún er samt komin á þann aldur að það þarf ekki að hafa sérstakar áhyggjur af henni, getur vel verið ein heima og svo er bara örfárra mínútna gangur fyrir hana að fara til mömmu sinnar í vinnuna. Og svo eru auðvitað íþróttaæfingarnar (fótbolti og handbolti). Þær eru náttúrlega ekki á skólatíma en hljóta að draga úr leiðindunum.