Steikt brauð eða soðið? Ég er hér með smábækling frá Áskaffi í Skagafirði um gammeldags kaffibrauð og þar stendur ,,Soðbrauð, eins og Skagfirðingar kalla það. Aðrir kalla það skonsur eða steikt brauð." - Ég veit svosem ekki hvað þetta er kallað þarna handanvatna en á mínu bernskuheimili í Blönduhlíðinni var þetta aldrei nokkurn tíma kallað annað en steikt brauð og ég held að það hafi ekki verið fyrr en á Akureyri sem ég heyrði fyrst talað um soðið brauð eða soðbrauð. Eða parta; heitið skonsur man ég varla eftir að hafa heyrt á þessu bakkelsi. Þeir lesendur sem á annað borð þekkja þetta bakkelsi mættu gjarna láta vita hvaða heiti þeim er tamt að nota.
Reyndar er ýmislegt fleira vafasamt í þessum bæklingi, eins og sú fullyrðing að kleinur hafi verið steiktar í eldhúsum landsmanna langleiðina frá landnámi Íslands og að vínarterta og brúnterta hafi formlega verið fyrstu rjómaterturnar hérlendis.