Það er merkilegur andskoti hvað klettar geta lækkað mikið, gil grynnkað og vegalengdir styst á innan við fjörutíu árum.
Við systkinin komum semsagt við á bernskustöðvunum í Djúpadal í blíðviðrinu í dag. Ég set kannski inn nokkrar myndir þaðan þegar ég kem suður annað kvöld.
Það var auðvitað mjög gott að koma í Dal (og Kringlumýri, við fórum þangað líka) en ég hefði reyndar verið til í ferð á hvaða stað sem var í Skagafirði, þar sem fótboltabrjálæðingarnir frændur mínir voru búnir að leggja undir sig stofuna hjá gömlu hjónunum og horfðu á tvo leiki í enska boltanum á meðan við fórum í Blönduhlíðina. Og létu sér fátt um finnast þótt sólin skini úti og hitinn væri um eða yfir tuttugu stig.