Efnafræðistúdentinn var friðlaus í gærkvöldi af því að hann var svo mikið að velta því fyrir sér af hverju einn leikmaður í hverju blakliði er í öðruvísi peysu en hinir. Ég sé að hann er ekki einn um það. Ég stakk upp á að þetta væri markmaðurinn en það hlaut litlar undirtektir.
Hann dóttursonur minn var víst svo heillaður af stangarstökkinu í gær að hann harðneitaði að fara að sofa fyrr en því var lokið og fór að væla í hvert sinn sem skipt var yfir á aðra íþróttagrein. Ég er búin að bjóða honum í heimsókn að horfa á undankeppnina í stangarstökki karla á Eurosport til að unnt verði að komast að því hvort það er stangarstökkið sem slíkt sem heillar hann eða bara leggjalangar, fáklæddar stelpur.
Annars finnst mér lítið varið í stangarstökk karla eftir að Bubka hætti. Hann hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi í minni fjölskyldu. Spurning hvort hægt er að ala Sauðargæruna upp í að verða hinn nýi Bubka, ef stangarstökksáhugi hans reynist ekta. En þá verð ég líklega að fara að koma mér upp súrkálstunnu. Ég hef alltaf verið með þá kenningu að það hafi haft mikið áhrif á feril Sergeis að hann datt í súrkálstunnu foreldra sinna ungur að árum og var nærri drukknaður.