Ég hef áður greint frá dularfullum atburðum hér á Kárastígnum og það verður ekkert lát á þeim. Ónei, nú er það Dularfulla súrmjólkurhvarfið.
Sko, hér er afar sjaldan keypt súrmjólk. Ég borða hana helst ekki (það tengist meðal annars þremur súrmjólkurpokum sem sprungu yfir mig við kassann í kjörbúð KS á Smáragrundinni, þar sem nú er Ríkið á Króknum - það eru meira en 35 ár síðan en ég hef aldrei náð mér eftir þann atburð. Ókei, mér fannst súrmjólk ekkert góð fyrir og þykir það ekki enn). Og á afar löngum lista sem efnafræðistúdentinn gæti gert yfir ,,least favourite foods" væri súrmjólk án efa ofarlega á blaði.
Þannig að ég kaupi eiginlega bara súrmjólk þegar ég þarf að nota hana til matargerðar eða í bakstur. Og í fyrradag stóð til að baka bláberjamúffur fyrir afmæli dóttursonarins þannig að ég keypti súrmjólkurfernu og setti hana í ísskápinn þegar ég kom heim. En þegar ég var að fara að baka múffurnr í gærmorgun var búið að opna fernuna og taka hluta af súrmjólkinni.
Ég var svolítið hissa en var viss um að einhver svangur vinur efnafræðistúdentsins hefði komið heim með honum um nóttina og fengið sér súrmjólk. Það var nú ansi margt girnilegra en súrmjólk í ísskápnum en smekkur manna er misjafn. Svo að ég bakaði bara múffurnar og hugsaði ekki meira út í það. En þegar drengurinn vaknaði kom upp úr dúrnum að ekki hafði nokkur maður komið þarna á hans vegum og þaðan af síður hafði hann farið sjálfur í súrmjólkina. Kærastan hans er ekki í bænum og barnabörnin - sem bæði borða súrmjólk af bestu lyst - höfðu ekki komíð í heimsókn síðan súrmjólkin var keypt.
Mjög undarlegt. Að vísu á ég örugglega eftir að átta mig bráðlega, sennilega hef ég sjálf notað súrmjólkina í eitthvað en Alzheimerinn er að ná yfirhöndinni því að ég man ekki eftir neinu slíku. En þangað til þetta kemst á hreint er Dularfulla súrmjólkurhvarfið óupplýst. Og nei, það þýðir ekkert að kenna Engilbert um það.