Ég þekkti lítið hann frænda minn sem fannst látinn í Grafarvogi í gær. Hann kom stundum norður með foreldrum sínum eða afa þegar ég var krakki - afar okkar voru bræður. Mig minnir að okkur hafi þótt hann og systkini hans frekar furðuleg eins og flestir aðrir krakkar að sunnan. Ég kynntist honum samt aðallega þegar við vorum tvö saman í sveit í Djúpadal eitt vorið, ætli ég hafi ekki verið ellefu ára; hann var ári eldri. Það fór þokkalega á með okkur, ég man að hann stríddi mér töluvert, kannski aðallega með því að segja mér brandara sem ég skildi ekki og hlæja að mér fyrir að skilja þá ekki. Ég gerði grín að honum í staðinn fyrir að vita ekki eitt og annað um sveitalíf.
Hann tók afar rösklega til matar síns, jafnvel svo að afa þótti nóg um, en ég var matgrönn á þeim árum. Það var samt ég en ekki hann sem stal pylsu úr frystikistunni hjá Elinborgu. Hún var fljót að komast að því hver var sökudólgurinn, mig minnir að hún hafi sagt að hún hafi strax vitað að það var ég fyrst það var bara ein pylsa sem hvarf - Eiríkur Örn hefði varla látið sér nægja eina.
Ég hitti hann ekki í fjöldamörg ár en í afmæli í fjölskyldunni fyrir nokkrum árum tókum við tal saman því að þá áttum við sameiginlegt áhugamál. Hann var nefnilega afbragðsgóður kokkur þótt hann væri ólærður og átti svosem ekki langt að sækja það. Helga amma hans var fræg fyrir matargerð sína.
Ég sendi fjölskyldunni samúðarkveðjur.