Þar sem foreldrar mínir eru að flytja á næstu dögum hafa þau (nei, ég ætla sko ekki að skrifa þeir) á undanförnum mánuðum verið að fara í gegnum alls konar pappíra og dót. Það safnast náttúrlega ýmislegt fyrir á 37 árum og sumt tilheyrir okkur systkinunum.
Á meðal þess sem kom upp úr einhverri hirslu og ég fékk í hendur á dögunum var bréf frá Menntaskólanum á Akureyri, stílað á Valgerði Rögnvaldsdóttur, Smáragrund 17, Sauðárkróki. Ég nota Valgerðarnafnið lítið - of lítið kannski - og hef örugglega skrifað Nanna V. eða í mesta lagi Nanna Valgerður á umsóknina. Ég hef ekki hugmynd um af hverju Tryggvi skólameistari hefur sleppt Nönnunafninu en þetta er annað af tveimur bréfum sem ég hef fengið um dagana sem stílað var á Valgerði Rögnvaldsdóttur - hitt var frá sovéska sendiráðinu og það er allt önnur saga.
Hvað sem því líður, þá er texti bréfsins - eða miðans, þetta er ekki nema rúmur þriðjungur af A4-blaði - svohljóðandi:
Valgerður Rögnvaldsdóttir
Yður hefur verið veitt skólavist ásamt vist í heimavist skólans skólaárið 1973-74. Tryggingargjald að upphæð 2 þúsund krónur ber að senda skólanum fyrir 15. ágúst n.k. til að staðfesta umsókn um heimavist. Skólinn verður settur mánudag 1. október kl. 14.00.
Akureyri, 3. júlí 1973
Tryggvi Gíslason
Skólavist ásamt vist í heimavist skólans skólaárið - þetta er dálítið skemmtileg klausa.