Móðir mín, sem að sjálfsögðu man öllu lengur aftur en ég, segir að fyrsta hljómsveit Geirmundar hafi verið Ferguson-hljómsveitin, sem svo var nefnd (ekki veit ég hvort hljómsveitarmeðlimir sjálfir notuðu það nafn) vegna þess að drengirnir í sveitinni voru of ungir til að aka bíl og urðu að koma á dráttarvél á böllin. Ekkert man ég eftir þeirri sveit, ætli ég hafi ekki verið fjögurra ára þegar Geiri komst á bílprófsaldurinn.
Ég man aftur á móti vel eftir fyrstu útgáfunni af Hljómsveit Geirmundar. Í henni voru auk Geira sjálfs þeir Bassi (sem átti eftir að komast með lag í Eurovision þótt Geira tækist það aldrei), Viddi Sverris og Himmi bróðir hans, sem var bara nokkrum mánuðum eldri en ég og þurfti undanþágu til að spila í sveitinni fyrst í stað, þar sem hann var of ungur til að mega vera á böllunum. En hann var þó aldrei á Ferguson.
Ég man eftir Bassa og Geira að syngja Nínu og Geira (Geiri söng hlutverk Nínu). Ég man eftir ... æi, nei, nú kom efnafræðistúdentinn hingað inn og kveikti á sjónvarpinu og stillti það hátt og ég þarf að færa mig inn í stofu og má ekki vera að því að rifja upp fleiri Geiraminningar núna. Kannski seinna.