Ég tók Boltastelpuna og efnafræðistúdentinn með í hádegismat á Hressó áðan. Við mæðginin fengum okkur risavaxnar klúbbsamlokur en Boltastelpan borðaði vænan hamborgara og slatta af frönskum. Gat samt ekki lokið við frönskurnar og sagðist vera að springa.
Í lok máltíðarinnar stakk efnafræðistúdentinn upp á að við fengjum okkur ís í næstu ísbúð. Systurdóttir hans tók þeirri tillögu fagnandi en ég minnti hana á að hún hefði sagst vera að springa.
- Já, ég er að springa, en ég get samt alltaf borðað kalt, sagði stúlkan.
Það tókst hins vegar ekki alveg. Hún hafði ekki áttað sig á því hvað stóri ísinn í ísbúðinni á Ingólfstorgi er stór.