Gömul og þreytt ...
Ókei, ég á ekki afmæli fyrr en eftir viku. En ég er búin að vera á þönum við eldamennsku í allan dag, hef sofið frekar illa að undanförnu, hef verið á kafi í vinnu og verkefnum margar síðustu helgar - svo að ég er allavega þreytt. Þarf reyndar að gera ansi margt um helgina en allavega verður ekkert gert í kvöld. Ég er að hugsa um að hreiðra um mig í sófahorninu með bók, líklega þessa hér, og kannski púrtvínsglas. Og örugglega súkkulaðibita.
Við gagnlega barnið fengum okkur rauðvín á Apótekinu áðan (það voru engin sæti á Vínbarnum), það bjargaði deginum eiginlega alveg. Svo fór ég í mat til hennar þar sem efnafræðistúdentinn er ekki heima og ég nennti ekki að elda handa mér einni eftir að hafa verið að elda mat í allan dag. Hún er annars eiginlega sú eina sem býður mér í mat.
Sauðargæran bakaði þykjustuköku handa mér í eftirmat, við vorum sammála um að hún væri mjög góð. Ég þarf samt á alvörusúkkulaði að halda, svona í ábót á eftirmatinn.