Segið mér nú eitt: Talið þið um engifer í karlkyni eða hvorugkyni (það er að segja ef þið talið þá yfirleitt einhvern tíma um engifer)?
Mér er tamt að segja engiferinn og held að ég hafi aldrei sagt annað. En orðabækur virðast eingöngu vera með hvorugkynið. Hinsvegar hafa prófarkalesarar ekki gert athugasemd við engiferinn minn fyrr en núna. Ég ætla aldrei þessu vant að beygja mig undir vilja þeirra en það er svo fast í mér að hafa engifer í karlkyni að mér finnst skelfing ljótt að sjá talað um engiferið. En ég er nú líka frægur sérvitringur.
Sennilega reyni ég að snúa mig út úr þessu með því að forðast eftir bestu getu að nota allar þær orðmyndir þar sem kynið kemur fram. En það er ekki alltaf hægt.