Ég skrapp í Filippseyjar á Hverfisgötunni áðan af því að birgðir heimilisins af austurlensku hráefni hafa verið í lágmarki og keypti ýmislegt sem Bónus og 10-11 selja ekki: Ferskt okra, kaffírlímónulauf, galangal, austurlensk eggaldin (þessi hvítgrænu í hænueggjastærð, sem eggaldin hafa nafn sitt af), niðursoðið saðningaraldin (jackfruit), pálmasykur, þurrkaða kínverska sveppi, niðursoðna mjólk. Ætlaði að kaupa mjölbanana en þeir voru ekki til. Ótrúlegt samt hvað er stundum hægt að fá í þessari litlu búð.
Ég veit samt ekki alveg ennþá hvað ég elda. Ætla kannski að kíkja í nokkrar tælenskar eða indónesískar bækur og athuga hvort einhverjar hugmyndir kvikna. Bækurnar sem ég á frá Laos hafa líka stundum orðið kveikja að góðum réttum. Kemur í ljós.