Það er víst kyndilmessa í dag. Eða Groundhog Day, svona eftir því hvort maður er meira inní íslenskri eða amerískri menningu. En allavega tengist dagurinn veðurspám. Ekki veit ég hverju múrmeldýrið mundi spá en sólin spáir fannfergi á næstu vikum. Það er að segja, ef maður er með útgáfuna ,,ef í heiði sólin sést / á sjálfa Kyndilmessu". Sumir segja hins vegar að það eigi að vera ,,ef í heiði sólin sest" og það kemur ekki í ljós fyrr en seinna í dag hvort svo verður. Samt litlar líkur til annars miðað við skýjafarið.
En ef maður ætti að lifa sama daginn upp aftur og aftur, eins og í bíómyndinni, þá væri vel hægt að hugsa sér verri dag en þennan. Upp á veðrið að gera að minnsta kosti.
En man einhver hvernig veðrið var á Pálsmessunni? (25. janúar)
Ef heiðskírt er og himinn blár
á helga Pálus messu,
mun þá verða mjög gott ár;
mark skal taka á þessu.