Ég skrapp út áðan þótt Kárastígurinn sé reyndar verulega þungfær núna. Ætlaði bara í Bónus að kaupa mjólk og brauð en mundi svo að það er að byrja útsala í búð sem ég versla stundum í af því að það er svo gaman þegar sagt er við mann ,,nei, því miður, litlu númerin eru bara búin" - það er ekki oft sem ég lendi í því. Og endaði á að kaupa mér jakka. Ætlaði að fara að máta buxur af gömlum vana en áttaði mig svo á því að aldrei þessu vant, þá vantar mig alls ekki buxur. Það er mjög óvenjulegt.
Það var mikill snjór á gangstéttunum á Laugaveginum en þó var báðum megin búið að troða slóð, nægilega breiða til að hægt var að mætast. En sirka fyrir utan Brynju stóðu tveir karlmenn og kona - allt fólk á besta aldri - og hafði greinilega hist þarna og þurfti mikið að tala saman og hlæja. Stóðu öll í troðningnum og tepptu gjörsamlega alla umferð. Datt ekki í hug að víkja fyrir öðrum. Aðrir vegfarendur þurftu að klofa gegnum djúpa skaflana öðruhvoru megin, ég sá bæði gamalmenni og fólk með lítil börn lenda í því. Ekki datt fólkinu í hug að færa sig; þó voru ekki nema tveir eða þrír metrar að næsta auða bletti utan við gönguleiðina.
Skömmu áður hafði ég gengið framhjá þremenningum á gangstéttinni hinum megin við götuna, sem líka höfðu stoppað til að spjalla saman. En þau stóðu úti í sköflunum beggja vegna og létu fólk ganga óhindrað á milli. Trufluðu enga umferð en skemmtu sér samt alveg jafnvel og hinir. Þetta voru útlendingar, hitt Íslendingar. Ætli það hafi skipt máli?