Ég er búin að vera að elda lambakjöt í allan dag. Kryddjurtahjúpað lambalæri með ofnsteiktum gulrótum og nípum (nípur eru það sem íslenskar verslanir og veitingamenn þrjóskast við að kalla ,,steinseljurót", væntanlega vegna misskilnings á enska orðinu parsnip. Alvöru steinseljurót (parsley root) lítur aftur á móti svona út og er best í súpur og þess háttar); lambalærvöðva með gráfíkjum, döðlum, furuhnetum og kúskús; framhryggjarfilletsneiðar í kókoskarrí-sveppasósu; og salat með snöggsteiktum kryddlegnum lambalundum. Mikið getur nú íslenskt lambakjöt verið gott. Reyndar getur það líka verið frekar vont en það er engin ástæða til að hafa það þannig.
Eins og ég sagði víst einhvern tíma: Þegar ég uppgötvaði að það tekur ekkert lengri tíma að elda góðan mat en vondan, þá ákvað ég að elda frekar góðan.