Ég semsagt yfirgaf höllina um eittleytið án þess að kveðja drottninguna neitt sérstaklega og gekk út í sólina á Damtorginu. Þar stóðu enn japanskir túristar og góndu, þó líklega ekki þeir sömu og um morguninn. Á leiðinni heim á hótelið kom ég við í búð og mátaði röndóttar buxur sem ég varð ástfangin af. Ákvað samt að geyma aðeins að kaupa þær.
Ég notaði svo tímann til að skoða mig um en upp úr sex tók ég leigubíl á Hilton-hótelið, þar sem Erasmusprijs-nefndin bauð til kvöldverðar sem kokkarnir á Hilton og nemendur Elout-grunnskólans sáu um í sameiningu. Það var nokkuð skemmtilegt, krakkar sirka á aldrinum 8-14 ára sáu um matargerðina að hluta og framreiðslu að mestu. Þau skreyttu líka salinn með pappamassamyndum af alls konar fiskum og sjóskrímslum.
Áður en sest var að borðum buðu krakkarnir pinnamat frá heimalöndum sínum (skólinn virtist vera mjög fjölþjóðlegur) og eftirréttirnir voru sömuleiðis fjölbreytt samsafn rétta frá ýmsum löndum. Uppskriftunum að þessum réttum hafði svo verið safnað saman í matreiðslubók sem gestirnir fengu að gjöf. Millirétturinn var hins vegar grillaður spergill og grænmeti og aðalrétturinn lambafillet með kúskús og tahini-sósu. Ágætt en ekkert sérlega eftirminnilegt.
Samræðurnar undir borðum voru aftur á móti mjög skemmtilegar, ekki síst vegna þess að borðherra minn, bókaútgefandinn Eldred Gordon-Smith (nafnið eins og úr bók eftir Woodehouse og maðurinn sjálfur eiginlega líka - Eton- og Cambridge-menntaður aristókrati) reyndist vera einn af þessum náungum sem nýtur þess fram í fingurgóma að vera ósammála fólki um alla skapaða hluti og fann sér verðugan andstæðing í frúnni sem sat hinum megin við mig, eiginkonu bresks diplómata á eftirlaunum, sem sjálf sagði að það væri mikil blessun að geta loksins leyft sér að láta í ljósi skoðanir sínar eftir að hafa þurft að gæta tungu sinnar í áratugi vegna stöðu eiginmannsins. ,,Gallinn er að skoðanir hennar eru allar rangar," hvíslaði Gordon-Smith að mér. Bæði voru hins vegar orðfim þannig að mér leiddist ekkert, hvort sem umræðurnar snerust um Íraksstríðið, Evrópumál, hrekkjavöku, barnauppeldi, hvort England væri smáríki, bandaríska tengdasyni, Tony Blair eða fisk. Ég hafði ekki alltaf mikið til málanna að leggja en það gerði ekkert til.
Ég veit ekki alveg með þetta hótel sem ég var á en í morgunmat á fimmtudaginn áttaði ég mig allt í einu á því að ég var eina konan í salnum, allir hinir gestirnir voru karlmenn sem ýmist voru miðaldra, feitir, kraftalegir og frekar vafasamir í jakkafötum eða yngri, þreknir, kraftalegir og frekar vafasamir í stuttermabolum. Þeir virtust flestir þekkjast, litu allir út eins og persónur í Sopranos og ég er nærri viss um að það stóð yfir ráðstefna hjá hollensku mafíunni. Eða bændasamtökunum eða kannski bara stéttarfélagi olíubílstjóra. Nema þetta hafi bara haft eitthvað með staðsetninguna í Rauða hverfinu að gera. Allavega flýtti ég mér með morgunmatinn og ákvað að skreppa í búðir. Fór aftur og mátaði röndóttu buxurnar en þær reyndust ekki líkt því eins flottar á mér og daginn áður. Sennilega var það hvítvínið hjá drottningunni sem hafði villt mér sýn. Svo að ég keypti mér húfu, trefil og veski í staðinn.
Ég fór líka í eldhúsdótabúð eins og ég geri ævinlega hvar sem ég kem og keypti mér spekknál, sem mig hefur lengi vantað - ókei, langað í. Var að hugsa um að kaupa álitlegan hníf en hætti við það þegar ég mundi að ég ætlaði bara að vera með handfarangur. Svo þegar ég var komin heim á hótel og var að pakka niður áttaði ég mig auðvitað á því að spekknálin er banvænt morðtól og varla nokkur möguleiki að hún slyppi í gegnum vopnaleit. Svo að ég ákvað að tékka bakpokann inn eftir allt saman.
Flugferðin til Luton með EasyJet var tíðindalaus með öllu, nema hvað ég dáist enn að því hvað flugfreyjunni tókst að vera svipbrigðalaus þegar hún sagði, einhvers staðar yfir Norðursjónum, ,,anyone caught smoking in the lavatories may be asked to leave the plane immediately". Ég held næstum að hún hafi meint það.
Dagarnir þrír í Englandi voru ekki sérlega frásagnarverðir en fyrst ég er að segja ferðasöguna á annað borð skrifa ég líklega eitthvað um þá á morgun.