Ég fór að hugsa um það á Messíasi í gær (ég fór bara fyrir kórinn og hljómsveitina, einsöngvararnir voru ekki að hrífa mig neitt sérstaklega, að Þóru Einarsdóttur undanskilinni) hvernig væri að vera pákuleikari í sinfóníuhljómsveit. Stundum vorkennir maður pákugaurnum (eru pákuleikarar einhverntíma kvenkyns?), hann situr þarna á bak við hina langtímum saman og hefur akkúrat ekkert að gera, jú, og svo kemur kafli þar sem hann fær að njóta sín og lemja pákurnar sínar, en annars er hann bara að góna út í loftið. Hvernig verða menn annars pákuleikarar? Aldrei hef ég heyrt um neinn sem er að læra pákuleik. En kannski er pákuleikarabraut í tónlistarskólanum, kannski eru haldnir einleikstónleikar á pákur og kannski er fjöldi manns í framhaldsnámi í pákuleik erlendis. Ég hef ekki hugmynd. Eða er pákuleikurinn bara eitthvað sem menn lenda í næstum óvart?