Ekki ætla ég að fara að blanda mér neitt í skúringaumræðuna hjá Þórdísi og víðar. Nema hvað ég játa það fúslega á mig að þau skipti sem ég hef skúrað heima hjá mér síðustu tíu árin eru líklega teljandi á fingrum beggja handa. Ég meina, til hvers á maður börn? Eitt af hlutverkum efnafræðistúdentsins í þessu jarðlífi, og ein meginástæðan til þess að hann fær að búa frítt og er meira að segja gefið að éta líka, er að hann skúrar öðru hverju, þegar ég er búin að nöldra nógu oft og lengi í honum. Ekki oft, en það dugir mér alveg. Og þegar/ef hann loksins flytur að heiman, þá er ég viss um að ég útvega mér einhverja manneskju, karlkyns eða kvenkyns, til að taka skúringarnar að sér. Reyni jafnvel að veiða mér kall ef allt um þrýtur og láta hann sjá um þetta. Ég lýsi því yfir hér og nú að ég nenni ekki að skúra. Leiðindadjobb. Og ef einhver annar vill taka það að sér fyrir hæfilega greiðslu, eða fæði og húsnæði ef því er að skipta, þá tek ég því fagnandi.