Hér er uppskrift að fljótlegum kvöldmat sem passar vel á föstudagskvöldi. Hún er fyrir tvo dálítið svanga eða fjóra minna svanga. Það má alveg krydda kjúklingabringurnar öðruvísi, alveg eftir smekk; aðalatriðið er að skera þær í tvennt á þykktina svo sneiðarnar verði þunnar og mjög fljóteldaðar. Og reynið endilega að finna góða tómata, það skiptir höfuðmáli.
Kjúklingasamlokur í pítubrauði
2 kjúklingabringur, beinlausar og hamflettar
1/4 tsk paprikuduft
1/4 tsk oregano
1/4 tsk kummin, steytt
1/4 tsk kóríanderfræ, steytt
chilipipar á hnífsoddi (eða eftir smekk)
nýmalaður pipar
salt
ólífuolía
2-4 tómatar, vel þroskaðir (gjarna plómutómatar)
4 pítubrauð
1/2 tsk ítalskt brauðkrydd (eða einhver kryddjurta/pipar/saltblanda sem maður er sáttur við)
1-2 hnefar af góðri salatblöndu, t.d. klettasalatsblanda eða veislublanda
100-150 g rjómaostur
Kjúklingabringurnar lagðar á bretti, flatur lófi lagður ofan á og þær klofnar í tvennt á þykktina með beittum hníf. Öllu kryddinu blandað saman og bringurnar kryddaðar á báðum hliðum. Dálítilli olíu ýrt á grillpönnu eða venjulega pönnu, hún hituð vel og bringurnar steiktar við góðan hita í 3-4 mínútur á hvorri hlið, þar til þær eru rétt steiktar í gegn. Tómatarnir skornir í 1-1 1/2 cm þykkar sneiðar og steiktir með hluta af tímanum (gott að strá svolitlum nýmöluðum pipar og Maldon-salti á þá). Á meðan kjúklingurinn steikist er grillið í ofninum hitað. Pítubrauðin klofin og raðað á grind, dálítilli ólífuolíu ýrt á þau eða þau pensluð og brauðkryddi stráð yfir. Grilluð efst í ofni þar til þau eru rétt að byrja að taka lit; snúið og grilluð á hinni hliðinni. Neðri helmingarnir settir á fat eða diska, rjómaostssneið sett ofan á, svo salatblöð, kjúklingabringa, tómatsneiðar og síðast efri helmingurinn af pítubrauðinu. Borið fram eitt sér eða með meira salati, gjarna með basilíku- eða kryddjurtaolíu.