Við efnafræðistúdentinn vorum sein fyrir áðan og skutumst niður í Alþjóðahús og fengum okkur að borða (sesamlaxabuff og pasta með skinku og kapers). Undir borðum ræddum við um námið hjá honum og áður en ég vissi af hafði hann dregið upp blað og penna og var farinn að reikna jöfnur á fullu og reyna að útsýra þær fyrir mér. Einmitt. Ég benti honum á að ég hefði komist í gegnum fjögurra vetra ,,stærðfræði"nám í menntaskóla án þess að tekist hefði að kenna mér hvað annarrar gráðu jafna er. Sem ég held að ég hafi átt að læra í gaggó. Habbinn kenndi okkur stærðfræði í sjötta bekk og þegar hann uppgötvaði þetta í vetrarbyrjun einsetti hann mér að kenna mér þetta fyrir vorið. Það tókst ekki. Við vorum í tvöföldum stærðfræðitíma, fyrir og eftir löngufrímínútur. Seint í fyrri tímanum var hann vanur að taka mig upp að töflu og láta mig reikna. Það er að segja, reyna að reikna. Þessu var svo haldið áfram eftir frímínútur, nema ég tók mjög fljótt upp þann sið að láta mig hverfa og mæta ekki í seinni tímann. Ég náði samt prófinu um vorið, fékk nákvæmlega þá einkunn sem ég þurfti, en held að það geti hafa spilað verulega inn í að ég er Skagfirðingur.
Þegar efnafræðistúdentinn heyrði þetta lyftist hann allur í sætinu. Ég þekkti einkennin, hef séð þau áður. Hann ætlaði að spreyta sig á því sem meiri stærðfræðingar en hann hafa gefist upp á: að kenna mér að reikna annarrar gráðu jöfnur. Það merkilega var að hann komst nær því en aðrir sem hafa reynt. Ég var farin að halda að ég skildi þetta. Svo byrjaði hann á að reikna einhvern andskotann og þá tapaði ég þræðinum.
Ég meina, hvað hef ég eiginlega að gera við svona dót? Ég þarf stundum að stækka og minnka uppskriftir eða umreikna úr amerískum mælieiningum í metrakerfi og þess háttar. Pís of keik. Ég þarf að gera fjárhagsáætlanir fyrir húsholdninguna. Pís of keik (annað mál með að fara eftir þeim). Ég þurfti áður að reikna út stöðuna á tékkheftinu en nú sér bankinn um að fylgjast með debetkortinu. Þar með er eiginlega upptalin sú stærðfræði sem ég hef þörf fyrir.
Þetta er eins og með setningafræði. Ég hef grun um að setningafræðistöðin og stærðfræðistöðin séu hlið við hlið í heilanum og hafi rofið allt samband við umheiminn. Hlaðið um sig sandpokavígi. Ég hef aldrei botnað í setningafræði og aldrei séð ástæðu til. Ég held kannski að ef ég hugsa mig vel um geti ég fundið frumlag í setningu en allt fram yfir það er lokuð bók ... Umsögn, andlag, sagnfylling, forsetningarliður, atviksliður ... ég veit ekki hvað þetta er (já, ég veit að þetta er grunnskólanámsefni). Og hef ekkert að gera með að vita það. Ef svo ólíklega skyldi einhvern tíma vilja til að ég skyldi þurfa á einhverri vitneskju um setningafræði að halda, þá veit ég alveg hvern ég get spurt. Dugir mér alveg.