Mér finnst hálfpartinn vera síðasti dagur sumarsins í dag. Ég er að fara að vinna aftur á morgun, á reyndar eftir töluvert af fríi sem ég tek líklega ekki fyrr en um jólaleytið, veðrið er ekki beint sumarlegt, og svo er ég að elda ekta haust- og vetrarmat, það er að segja eins konar osso buco. Ég segi eins konar, af því að eiginlega er það ekki ekta nema maður noti kálfaleggi, en þeir fást varla. Sneiðar af nautaleggjum eru fínar líka og það má jafnvel nota lambaskanka ef því er að skipta, en það verður að vísu töluvert öðruvísi réttur. Þetta er til þess að gera ódýrt kjöt, 6-800 krónur kílóið, og einstaklega bragðgott ef það er látið malla nógu lengi við vægan hita til að bandvefurinn nái að leysast upp og kjötið verði meyrt. Sneiðarnar mega ekki vera of þunnt sagaðar - 4 cm eru lágmark.
Þetta er að malla núna, með tilheyrandi ilmi um alla íbúðina, og efnafræðistúdentinn gengur um með tilhlökkunarsvip. Ég veit ekki enn alveg hvað ég ætla að hafa með. Ef ég er í verulega ítölsku skapi sýð ég tagliatelle og ber það fram á undan með sósunni en við borðum svo kjötið og grænmetið á eftir, og þá bý ég líka til gremolata (söxuð steinselja, hvítlaukur og sítrónubörkur til að strá yfir). En það getur líka vel verið að ég beri þetta einfaldlega fram með kartöflustöppu. Eiginlega langar mig sjálfa meira í það en sú skoðun hefur ekki 100% fylgi hér á heimilinu. Ég er samt aðal og ræð, svo að kannski verður það ofan á.
Eníveis, hér er uppskriftin - þetta er einn af fáum réttum sem ég elda oft og gjarna nokkuð svipaðar útgáfur, þótt ég fari aldrei beinlínis eftir uppskrift:
Osso buco
1,5 kg sneiðar af nautalegg (osso buco)
hveiti
nýmnalaður pipar
salt
1 msk olía
1 msk smjör
2 laukar, grófsaxaðir
3 hvítlauksgeirar, saxaðir
4 gulrætur, skornar í bita
2 sellerístönglar, skornir í bita (má sleppa)
1 rósmaríngrein (eða 1 tsk þurrkað rósmarín eða timjan)
2 lárviðarlauf
200 ml hvítvín (eða vatn og nokkrar ræmur af sítrónuberki)
2 dósir tómatar (ein dós saxaðir, ein dós heilir)
vatn eftir þörfum
Kjötinu velt upp úr hveiti krydduðu vel með pipar og salti. Olía og smjör hitað á stórri, pönnu eða í víðum, þykkbotna potti og kjötið brúnað vel á báðum hliðum. Ef notuð er panna er það svo fært yfir í pott og geymt á meðan laukurinn og hvítlaukurinn er látinn krauma við meðalhita þar til hann er farinn að mýkjast en annars má bara setja lauk og hvítlauk í pottinn á milli kjötbitanna ásamt gulrótum og selleríi og látið krauma með því smástund. Rósmaríni og lárviðarlaufi bætt út í, hvítvíninu hellt yfir og látið sjóða niður um helming. Þá er tómötunum hellt yfir ásamt leginum úr dósunum, kryddað með meiri pipar og salti, og síðan er lok lagt yfir og látið malla við mjög vægan hita í 2 1/2 - 3 klst, eða þar til kjötið er vel meyrt og sósan þykk og bragðmikil. Best er að gægjast í pottinn af og til og bæta við svolitlu vatni ef uppgufun er mikil, en ekki of miklu - vökvinn á aldrei að ná nema upp á miðja bitana. Smakkað til með pipar og salti og borið fram. Síst verra upphitað daginn eftir.