Þéttvaxni póstmaðurinn kom hér áðan með bókasendingu og þegar ég var að kvitta á blaðið sem hann var með sá ég að í línunni fyrir ofan hafði einhver húmoristi kvittað fyrir sig með orðunum: Óður hundur. Ætli sé nokkurn tíma litið á allar þessar kvittanir? Reyndar minnir mig að efnafræðistúdentinn hafi á sínum yngri árum gjarna skrifað Andrés Önd undir debetkortakvittanirnar sínar. Það leit aldrei neinn á þær heldur.
Þetta var sending frá Amazon og allt í lagi með hana. En fyrir tveimur dögum fékk ég tilkynningu um að ég ætti sendingu í tollpósti. Ekkert um hver sendandi væri eða hvaðan sendingin kæmi. Ég faxaði þegar til baka samþykki á að það mætti opna hana til að leita að reikningi. Í dag fékk ég svo tilkynningu um að sendingin hefði verið opnuð og í henni enginn reikningur. Og ekkert sagt um sendanda. Ég á von á að minnsta kosti fjórum bókasendingum frá jafnmörgum löndum og hef ekki minnstu hugmynd um hver þeirra þetta er. Ætli ég neyðist ekki til að faxa reikninga eða greiðslukvittanir fyrir allar pantanirnar upp eftir. Ef ég finn þær þá. Og svo er þetta kannski eitthvað sem ég er búin að steingleyma að hafa pantað, annað eins kemur nú fyrir.
Ég vona að það sé ekki ný stefna hjá póstinum að sleppa að geta um sendanda á tilkynningum. Þeir gerðu það allavega alltaf hér áður fyrr.