Ég steingleymdi að fara á nærfatakynninguna sem var hér í kaffistofunni í gær, þannig að ég veit ekkert hvernig hágæða bómullar G-strengir líta út. Ekki að ég hafi sérstakan áhuga svosem. Þegar G-strengir berast í tal við Boltastelpuna (,,rasskinnabrækur" eins og hún kallar þá) rifjar hún upp karlinn sem við sáum á ströndinni á Rimini í fyrra - hann var í G-strengs-sundskýlu. Þetta var gráhærður karl, líklega á sextugsaldri, sæmilega grannur og spengilegur eftir aldri og fannst hann greinilega vera alveg æðislegur þar sem hann spókaði sig í fjöruborðinu. Okkur Boltastelpunni fannst það líka. Það er að segja, æðislega fyndinn. Ég held að ef henni dytti einhvern tíma í hug að biðja um G-streng þyrfti ekki annað en minna hana á karlinn í rasskinnasundskýlunni, það mundi samstundis draga úr áhuganum.