Sauðargæran lenti í slysi í gær, eins og systir hans lýsir á blogginu sínu. Þetta var þó ekki alvarlegt óhapp og hann lék við hvern sinn fingur þegar hann kom í kvöldmat áðan. Hélt að vísu greinilega með Þjóðverjum, klappaði gjarna og öskraði ,,veeei" þegar þeir sóttu eða Íslendingar klúðruðu, en ég held kannski að hann hafi verið að herma eftir viðbrögðum móðurbróður síns en misskilið þau eitthvað.
Ég held reyndar að áhorf mitt og drengsins hafi verið nokkuð svipað; við litum á skjáinn af og til en vorum meira upptekin af öðru. Ég var að skreppa fram í eldhús til að hræra í pottinum eða bæta meira grænmeti út í hann (svínakjöts- og grænmetispottréttur, vel kryddaður); Sauðargæran var aftur á móti stöðugt að sækja sér fleiri potta í pottaskápinn og drösla þeim inn í stofu, þar sem hann hrærði í þeim með sleifum sem ég lánaði honum. Svo dró hann mig fram í eldhús, tilkynnti ,,ég vil fá" og benti upp í loftið, þar sem stóra ausan mín hangir. Þetta er hótelausa, 60-70 sm löng og skálin tekur líklega hátt í 7 desilítra. Svo rölti hann um með þetta herfang sitt í eftirdragi og var að springa úr monti.