Gleraugnabúðir bæjarins hafa víst orðið fyrir heimsóknum af mönnum með lausa skrúfu. Í gleraugunum sínum alltsvo.
Ég er nú ekki þekkt fyrir að vera forsjál, svona almennt, en ég gekk árum saman með örskrúfjárn í veskinu mínu (veskin mín eru alltaf eins og taska Mary Poppins eða goggurinn á Pella), einmitt til að brúka þegar þetta gerist.
Svo kom 11. september og allir í panik, ég flaug til Bandaríkjanna nokkrum mánuðum síðar og þá þurfti ég að skilja eftir litlu samanbrotnu skærin sem ég var alltaf með í veskinu og hafa oft komið sér vel, og þorði svo ekki annað en skilja örskrúfjárnið eftir líka. Aldrei að vita nema það hefði verið hirt af mér á einhverjum þeirra sex bandarísku flugvalla sem ég kom við á sem stórhættulegt eggvopn. Og nú er það auðvitað týnt, af því að ég hafði ekki vit á að setja það í hnífaparaskúffuna. Þar er vegabréfið mitt nefnilega geymt og engin hætta á að ég gleymi hvar ég setti það.
Til allrar hamingju eru núverandi gleraugu mín ekkert í því að detta í sundur þegar minnst varir. Ekki enn allavega.