Það er keppandi í 5000 metra hlaupinu á heimsmeistaramótinu sem heitir Gebre-egziabher Gebremariam. Ég bíð spennt eftir að vita hvernig Samúel og félögum gengur með það nafn. Hvað ætli gebre- þýði annars á eþíópísku? (Ég veit að það tungumál er ekki til - ókei, amharísku, tigrinya, oromigna, guaragigna, sómalísku eða hvaða öðru tungumáli sem allir þessir Gebre- náungar tala.)
Ég er búin að fara með bréfið í póst. Í því var greiðsla til The African Book Collective fyrir úgandíska matreiðslubók og aðra frá Nígeríu. Það er skrattanum erfiðara að finna afrískar matreiðslubækur, en ég á einar tvær frá Eþíópíu. Það stendur ekkert um gebre í þeim.
Nú hef ég ekkert að gera það sem eftir er dagsins nema baka pitsu í kvöldmatinn. Með tómatmauki, hráskinku, kalamata-ólífum, ferskum mozzarellaosti og klettasalati. Nei, ég er svosem ekki að kvarta yfir því.